Mentorprógramm KÖTLU

MENTORAR 2025


Andri Þór Guðmundsson
Forstjóri Ölgerðarinnar og formaður Viðskiptaráðs

Lesa meira um Andra Þór Guðmundsson

Andri Þór er forstjóri Ölgerðarinnar og formaður Viðskiptaráðs. Andri var kosinn viðskiptafræðingur ársins 2024 hjá FVH. Hann hefur starfað hjá Ölgerðinni síðan 2002 og verið forstjóri síðan 2004. Undir hans forystu hefur fyrirtækið náð miklum árangri þrátt fyrir krefjandi efnahagsaðstæður undanfarin ár. Andri stýrði meðal annars vel heppnaðri skráningu Ölgerðarinnar á aðalmarkað Kauphallarinnar í júní 2022. Andri hefur lagt mikla áherslu að skapa jákvæða vinnustaðamenningu, gott starfsumhverfi, ásamt því að hafa stutt við jafnréttismál. Framgangur hans á þessum sviðum hefur skilað sér í góðu gengi fyrirtækisins en Ölgerðin hefur verið leiðandi í vöru- og viðskiptaþróun í sinni atvinnugrein og vakið eftirtekt bæði innan- sem utanlands.


Ari Fenger
Forstjóri og eigandi 1912 ehf.

Lesa meira um Ara Fenger

Ari Fenger er forstjóri og einn af eigendum 1912 ehf. 1912 er rekstrarfélag sem á Nathan & Olsen, Ekruna og Emmessís. Hann hefur stýrt félaginu frá 2008, en áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Nathan & Olsen. Ari sat í stjórn Viðskiptaráðs frá árinu 2014, en varð formaður ráðsins á árunum 2020 til 2024. Þá situr hann einnig í stjórn Stoða og Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins.


Arna Harðardóttir
Forstjóri Helix Health

Lesa meira um Örnu Harðardóttur

Arna Harðardóttir er forstjóri Helix Health, nýstofnaðs íslensks sprotafyrirtækis í heilbrigðisgeiranum. Helix Health varð til út frá heilbrigðislausnum Origo, sem er móðurfyrirtæki Helix Health. Arna hóf störf hjá heilbrigðislausnum Origo í nóvember 2020 sem yfirmaður sölu og markaðsmála. Hún tók síðan við stöðu framkvæmdastjóra og gegnir nú hlutverki forstjóra Helix Health. Arna er með BS-gráðu í lífeinda- og heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS-gráðu í viðskiptastjórnun frá sama skóla.


Ásta Sigríður Fjeldsted
Forstjóri Festi, móðurfélags N1, Elkó og Krónunnar

Lesa meira um Ástu Sigríði Fjeldsted

Ásta Sigríður er forstjóri Festi, móðurfélags N1, Elkó og Krónunnar. Hún gegndi áður stöðu framkvæmdastjóri Krónunnar í tvö ár. Þar á undan var hún framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands um þriggja ára skeið. Ásta hefur starfað hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við McKinsey & Co á skrifstofum félagsins í Kaupmannahöfn og í Tokýó, IBM í Danmörku og Össuri hf. bæði í Frakklandi og Íslandi. Hún er vélaverkfræðingur að mennt með M.Sc. gráðu frá DTU Tækniháskólanum í Danmörku.


Birna Íris Jónsdóttir
Framkvæmdastjóri Stafræns Íslands

Lesa meira um Birnu Íris Jónsdóttur

Birna Íris er framkvæmdastjóri Stafræns Íslands en hlutverk þess er að gera þjónustu hins opinbera aðgengilegri og hagkvæmari. Birna Íris er reynslumikill leiðtogi á sviði upplýsingatækni og er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði, MBA gráðu, auk diplómagráðu í jákvæðri sálfræði. Hún hóf störf sem forritari árið 2002 og hefur starfað sem stjórnandi síðan 2011 hjá Landsbankanum, Sjóvá, Högum og Össuri, auk þess sem hún hefur sinnt ráðgjafarstörfum hjá fyrirtæki sínu Fractal ráðgjöf. Gildi Birnu Írisar eru heilindi, fagmennska og eldmóður og hefur hún þau að leiðarljósi í bæði lífi og starfi.


Björg Áskelsdóttir
Senior Director, R&D portfolio strategy, hjá Ambu

Lesa meira um Björg Áskelsdóttur

Björg Áskelsdóttir starfar sem Senior Director, R&D portfolio strategy, hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Ambu í Danmörku. Áður starfaði hún sem ráðgjafi á sviði stefnumótunar og umbreytinga fyrirtækja, síðast hjá Boston Consulting Group í Kaupmannahöfn, og hefur aflað sér  alþjóðlegri reynslu með því að hafa starfað og sótt nám í Kaupmannahöfn, Amsterdam og New York. Björg er menntaður vélaverkfræðingur frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU) og er með MBA gráðu frá Columbia Business School.


Dagný Engilbertsdóttir
Forstöðumaður stefnumótunar á skrifstofu forstjóra hjá Festi

Lesa meira um Dagný Engilbertsdóttur

Dagný er forstöðumaður stefnumótunar á skrifstofu forstjóra hjá Festi. Þar styður hún við stefnumótun samstæðunnar, ber ábyrgð á sjálfbærnimálum félagsins og styður við ýmis verkefni á borði forstjóra. Dagný starfaði áður sem verkefnastjóri stefnumótunar hjá Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur. Þar áður, árin 2019-2021, var hún ráðgjafi hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn. Dagný er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA frá IESE Business School í Barcelona.


Davíð Gunnarsson
Forstjóri Dohop

Lesa meira um Davíð Gunnarsson

Davíð er forstjóri Dohop og hefur starfað hjá félaginu í 12 ár. Hann hóf störf sem markaðsstjóri, tók síðan við sölu og viðskiptatengslum og þar eftir stefnumótun, áður en hann tók við stöðu forstjóra árið 2015. Á ferli sínum hefur Davíð sérhæft sig í ferðatækni, sérstaklega í fluggeiranum. Hann hefur unnið náið með flugfélögum síðastliðin 10 ár og öðlast dýrmæta innsýn í rekstur þeirra frá viðskiptalegu sjónarhorni, sem og reynslu af samstarfi flugfélaga, áætlanagerð flugleiðakerfa og tekjustýringu. Davíð brennur fyrir forystu og stjórnun og hefur sérstakan áhuga á því að byggja upp öflug teymi og skapa umhverfi þar sem einstaklingar geta náð sínum besta árangri.


Edda Hermannsdóttir
Markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka

Lesa meira um Eddu Hermannsdóttur

Edda er markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka en hún starfaði áður sem aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins, þar sem hún vann markvisst að því að auka vægi kvenna í viðskiptafréttum. Edda var einnig spyrill i Gettu Betur hjá RÚV og hefur gefið út bækurnar Forystuþjóð og Framkoma. Í bókinni Forystuþjóð, sem Edda skrifaði með Ragnhildi Steinunni, er rætt við þjóðþekkta einstaklinga um jafnréttismál. Í bókinni Framkoma fer Edda yfir helstu atriði í hvers kyns framkomu og tekur viðtöl við fólk sem vant er að koma fram. Edda er hagfræðingur með stjórnendagráðu frá IESE í Barcelona og stundar nú nám í nýsköpun við Harvard Business School meðfram starfi sínu í Íslandsbanka.


Elva Guðrún Guðjónsdóttir
Framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Annata

Lesa meira um Elvu Guðrúnu Guðjónsdóttur

Elva er forstöðumaður markaðsmála hjá Annata og hefur víðtæka reynslu af markaðssetningu og viðskiptaþróun innan hugbúnaðargeirans. Með 17 ára reynslu af markaðsmálum hefur hún unnið bæði með B2C og B2B markaðssetningu, en hún starfaði í 8 ár hjá Vodafone þar sem hún sinnti markaðsmálum fyrir neytendamarkað áður en hún færði sig yfir í B2B markaðssetningu hjá Annata. Elva stýrir alþjóðlegu teymi og ferðast mikið vegna starfa sinna, en tekst á sama tíma að viðhalda góðu jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Hún er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og situr í stjórn Kaptio.


Erla Sylvía Guðjónsdóttir
Framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá APRÓ

Lesa meira um Erlu Sylvíu Guðjónsdóttur

Erla er reyndur sérfræðingur í mannauðsmálum með sérhæfingu í stjórnendaráðgjöf, hæfileikastjórnun, ráðningum og samrunum innan tæknigeirans. Hún hefur sýnt fram á árangur í forystu mannauðsverkefna og háafkastateyma fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Erla býr yfir djúpri þekkingu á starfsmannatengslum, launa- og fríðindamálum og skipulagsþróun. Erla hefur verið mannauðsstjóri ýmissa þekktra fyrirtækja á Íslandi en starfar nú sem framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá APRÓ.


Guðrún Inga Ingólfsdóttir
Forstöðumaður eignastýringar Lífsverks lífeyrissjóðs

Lesa meira um Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur

Guðrún Inga er forstöðumaður eignastýringar Lífsverks lífeyrissjóðs. Hún hefur langa reynslu af fjármálamörkuðum og hefur frá árinu 2010 til 2021 verið staðgengill forstöðumanns eignastýringa Gildis-lífeyrissjóðs, en áður starfaði hún meðal annars við stefnumótun fyrirtækja og viðskiptaráðgjöf í Bandaríkjunum og á Íslandi. Guðrún Inga er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðahagfræði og -fjármálum frá Brandeis International Business School í Boston. Þá hefur hún einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.


Hildur Ragnars
Forstjóri Þjóðskrár

Lesa meira um Hildi Ragnars

Hildur Ragnars var skipuð forstjóri Þjóðskrár árið 2022 en fram að því hafði hún setið í framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Hildur kemur úr lyfjageiranum en áður en hún hóf störf hjá Þjóðskrá var hún yfirmaður vörustýringar hjá Medis. Þar á undan vann Hildur fyrir alþjóðlega lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline. Hildur er lyfjafræðingur en tók MBA gráðu meðfram störfum sínum hjá GlaxoSmithKline.


Hilmar Karlsson
Upplýsingastjóri (CIO) og yfirmaður viðskiptaferlastjórnunar & upplýsingatækni hjá Eimskip

Lesa meira um Hilmar Karlsson

Hilmar Karlsson er upplýsingastjóri (CIO) og yfirmaður viðskiptaferlastjórnunar og upplýsingatækni hjá Eimskip. Hann hefur starfað hjá Eimskip síðan 2017, en gegnt núverandi stöðu frá árinu 2018. Hilmar starfaði áður í yfir 10 ár hjá Arion banka í ýmsum stjórnunarstöðum tengdum upplýsingatækni. Hann var yfirmaður reksturs upplýsingakerfa frá 2006 til 2011 og síðar yfirmaður hugbúnaðarþróunar frá 2011 til 2017, þar sem hann bar ábyrgð á þróun netbanka, smáforrita og CRM-kerfa. Hilmar er með Cand.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands, sem hann lauk árið 1997.


Hrefna Lind Ásgeirsdóttir
Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá RÚV

Lesa meira um Hrefnu Lind Ásgeirsdóttur

Hrefna Lind er framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá RÚV en síðustu ár hefur hún starfað sem tækni- og þróunarstjóri Stafræns Íslands þar sem hún sinnti meðal annars stefnumótun fyrir stafræna vegferð hins opinbera. Sem vörustjóri Stafræns Íslands bar hún ábyrgð á vöruþróun tæknilausna fyrir hið opinbera, t.d. innskráningar- og umboðskerfis Ísland.is. Hrefna Lind gegndi einnig starfi forstöðumanns hugbúnaðarþróunar hjá Tempo Software og var framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar hjá Meniga, auk fleiri starfa þar við þróun hugbúnaðarlausna, stefnumótun og áætlanagerð. Hrefna Lind er með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, MSc gráðu í hönnun og stafrænni miðlun (Design and Digital Media) frá Háskólanum í Edinborg, og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.


Hrund Rudolfsdóttir
Framkvæmdastjóri Sólvalla og stjórnarkona 

Lesa meira um Hrund Rudolfsdóttur

Hrund Rudolfsdóttir er reyndur stjórnarmaður með víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og sérþekkingu á lyfjaiðnaðinum. Hún hefur sérhæft sig í mannauðsstjórnun, stefnumótun, rekstrar- og viðskiptaþróun. Hrund situr í fjórum stjórnum: Skaga (sameinað félag Fossa, VÍS og ÍV), NOVA, Expectus, , og sem stjórnarformaður í Veitum.  Hún er nú framkvæmdastjóri Sólvalla rekstrarfélags, sem er landþróunarfyrirtæki, auk þess að sinna eigin fjárfestingum.  Áður starfaði hún sem forstjóri Veritas og hefur gegnt lykilstöðum í Marel, Milestone/Moderna Finance og Lyf & Heilsa. Hún er með M.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School, Cand.Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, ásamt Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School.


Karen Ósk Gylfadóttir
Fram­kvæmda­stjóri Lyfju

Lesa meira um Karen Ósk Gylfadóttur

Karen Ósk Gylfa­dóttir er fram­kvæmda­stjóri Lyfju og situr um leið í framkvæmdastjórn Festi, en hún gegndi áður starfi fram­kvæmda­stjóra vöru- og markaðs­sviðs og staf­rænnar þróunar hjá Lyfju. Karen Ósk er við­skipta­fræðingur frá Há­skóla Ís­lands og tók stjórn­enda­nám við Kellogg Nort­hwestern há­skólann vorið 2024. Hún starfaði áður í alls sjö ár hjá Nova, síðast sem markaðs­stjóri en gegndi einnig stöðu sölu- og þjónustu­stjóra og við­burða­stjóra. Karen var markaðssér­fræðingur í markaðs­deild Ís­lands­banka á árunum 2015-2017 á­samt því að koma að þjónustu­málum og stefnu­mótunar­verk­efnum bankans.


Katrín Olga Jóhannesdóttir
Framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta

Lesa meira um Katrínu Olgu Jóhannesdóttur

Katrín Olga Jóhannesdóttir er í dag framkvæmdastjóri Elmu orkuviðskipta, sem vinnur að því að koma á virkri kauphöll fyrir raforku á Íslandi. Hún var fyrst kvenna kosin formaður Viðskiptaráðs Íslands og hefur mikla reynslu sem leiðtogi í íslensku viðskiptalífi. Hún hefur setið í fjölda stjórna, t.d. Icelandair Group, Högum, Advania, Ölgerðinni, Verði tryggingum, Landsneti, og bankaráði Seðlabanka Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Katrín Olga hefur einnig góða reynslu frá stjórnunarstöðum í fyrirtækjum, þar á meðal hjá Símanum, þar sem hún leiddi stærsta svið Símans og fyrirtækið í heild í gegnum miklar breytingar. Katrín Olga var líka meðeigandi Já ásamt Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Navision Island, sem var keypt af Microsoft, og svo mætti lengi telja. Hægt er að lesa meira um bakgrunn Katrínar Olgu á LinkedIn. Katrín Olga hefur tekið þátt í Mentorprógrammi KÖTLU frá byrjun og hafa margar konur nýtt sér þekkingu hennar og reynslu.


Katrín Jakobsdóttir
Formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands

Lesa meira um Katrínu Jakobsdóttur

Katrínu Jakobsdóttur þarf vart að kynna en hún er fyrrum forsætisráðherra Íslands og fyrrum formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Katrín situr nú sem formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands. Hún starfaði sem mennta- og menningarmálaráðherra frá árinu 2009 til 2013 og sem forsætisráðherra frá árinu 2017 til 2024. Katrín lauk BA prófi í Íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands og MA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands. Katrín starfaði áður sem málfarsráðunautur á fréttastofum RÚV, kenndi í Endurmenntun HÍ og Mími. Hún var einnig ritstjóri Eddu útgáfu og JPV útgáfu. Þá starfaði hún sem stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík.


Kristrún Tinna Gunnarsdóttir
Forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka

Lesa meira um Kristrúnu Tinnu Gunnarsdóttur

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hefur verið forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka frá árinu 2019. Hún hefur verið með erindi á ýmsum sjálfbærnitengdum viðburðum síðustu ár auk þess að sitja í stjórn sænska félagsins Vitamin Well, Votlendissjóðs og vera varamaður í stjórn RB. Kristrún Tinna vann áður hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman og í fyrirtækjaráðgjöf hjá Beringer Finance í Svíþjóð. Kristrún er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í hagfræði frá Stockholm School of Economics, ásamt því að vera með master í alþjóðastjórnun (MiM) frá Stockholm School of Economics og ESADE-háskólanum í Barcelona. Hún er einnig löggiltur verðbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík. Kristrún Tinna er flottur stjórnandi sem hefur tekið yfirgripsmikla þekkingu sína frá Norðurlöndunum heim til Íslands og hefur þegar haft áhrif á þróun og umræðu um fjármálakerfið á Íslandi.


María Björk Einarsdóttir
Forstjóri Símans

Lesa meira um Maríu Björk Einarsdóttur

María Björk er forstjóri Símans en áður var hún fjármálastjóri Eimskips. Þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags, eitt af stærstu fasteignafélögum landsins, en hún leiddi félagið í sjö ár, allt frá stofnun þess. María Björk hefur einnig starfað sem sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum hjá Gamma Capital Management árin 2013-2014 og sem sérfræðingur hjá Íslandsbanka árin 2012-2013. María Björk er með B.Sc. í rekstrarverkfræði með áherslu á fjármál frá Háskólanum í Reykjavík og er með próf í verðbréfaviðskiptum.


Salóme Guðmundsdóttir
Stjórn Fossa og Viðskiptaráðs

Lesa meira um Salóme Guðmundsdóttur

Salóme hefur starfað í hringiðu nýsköpunar og tækni frá árinu 2014, lengst af sem framkvæmdastjóri Klak – Icelandic Startups. Árið 2021 tók hún sæti í stjórn hjá Eyri Ventures og sinnti ýmsum verkefnum fyrir sjóðinn, m.a. fjárfestatengslum, mati fjárfestingakosta og ráðgjöf til fyrirtækja í eignasafni sjóðsins. Hún hefur einnig starfað sem stjórnandi hjá tveimur félögum í eignasafni Eyris Vaxtar. Salóme var forstöðumaður í viðskiptaþróun hjá PayAnalytics og framkvæmdastjóri rekstrar hjá Justikal. Hún hefur jafnframt starfað sem leiðbeinandi við MBA nám Háskólans í Reykjavík frá árinu 2021 þar sem hún hefur umsjón með lokaverkefni MBA nema sem unnið er í samstarfi við MIT háskóla. Salóme var einnig forstöðumaður Opna háskólans í HR á árunum 2011-2014. Salóme er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019. Hún hefur víðtæka reynslu af ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi og situr í stjórn Hönnunarmars, Viðskiptaráðs Íslands og er varamaður í stjórn Fossa fjárfestingabanka. Salóme er jafnframt stofnandi og formaður félags Kvenna í stjórnum – Women on Boards Iceland.


Selma Svavarsdóttir
Forstöðumaður á skrifstofu forstjóra hjá Landsvirkjun, eigandi Heimilisfélagsins og formaður KÍÓ

Lesa meira um Selmu Svavarsdóttur

Selma er forstöðumaður á skrifstofu forstjóra hjá Landsvirkjun, eigandi Heimilisfélagsins og formaður KÍÓ. Hlutverk KÍÓ er að efla þátt kvenna í orkumálum, styrkja tengsl þeirra, og auka áhrif innan orku- og veitugeirans. Selma hefur starfað hjá Landsvirkjun í 12 ár. Fyrst sinnti hún starfi sérfræðings á starfsmannasviði og tók síðar við sem forstöðumaður innri þjónustu. Selma hefur einnig starfað sem forstöðumaður á starfsmannasviði Landsvirkjunar og leiddi jafnréttisvegferð fyrirtækisins. Áður en Selma fór í orkugeirann hafði hún starfað í rúman áratug hjá Arion banka, meðal annars í markaðsmálum fyrirtækisins. Selma er með BS gráðu í viðskiptafræði og með MBA gráðu.


Sigríður Olgeirsdóttir
Stjórn Nova, DTE og Haga

Lesa meira um Sigríði Olgeirsdóttur

Sigríður hefur verið stjórnandi í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum í mörg ár. Sigríður er í dag stjórnarformaður Nova og DTE, og situr í stjórn Haga og Íslandshótels. Hún var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árið 2019-2021. Þar áður var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka árin 2010-2019, þar sem hún sat einnig í stjórn. Hún hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra Ax hugbúnaðarhúss, forstjóra Humac ásamt því að stofna og byggja upp Tæknival í Danmörku. Sigríður er með AMP gráðu frá Harvard Business School, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, rekstrar- og viðskiptanám hjá Endurmenntun HÍ og kerfisfræði frá EDB-skolen í Danmörku.


Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Framkvæmdarstjóri Kara Connect

Lesa meira um Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur

Þorbjörg Helga er frumkvöðull og fyrrverandi borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Hún sat í borgarstjórn frá árinu 2006 til ársins 2014. Þorbjörg Helga sat meðal annars sem formaður Umhverfis- og samgönguráðs, menningar- og ferðamálaráðs og leikskólaráðs. Hún stofnaði fyrirtækið Trappa ehf. og Kara Connect ehf. Hún er með BA-próf í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í námssálfræði frá Washington-háskóla í Seattle. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri og kennari við Háskólann í Reykjavík og sem ráðgjafi menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þorbjörg Helga sat í Háskólaráði Háskóla Íslands og stjórn Lánasjóðs Sveitarfélaga. Hún sat í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, stjórn Sorpu, stjórn Strætó og var formaður hússtjórnar Borgarleikhússins.


Þórdís Anna Oddsdóttir
Framkvæmdastjóri fjármála hjá 66°Norður

Lesa meira um Þórdísi Önnu Oddsdóttur

Þórdís Anna er framkvæmdastjóri fjármála hjá 66°Norður. Áður starfaði hún sem forstöðumaður fjárstýringar þar til í árslok 2021. Fyrir það starfaði Þórdís í fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka og þar á undan hjá Icelandair sem forstöðumaður tekjustýringar hjá flugfélaginu. Þórdís er með MS gráðu í iðnaðarverkfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta og BS gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.


Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé
Stofnandi og framkvæmdarstjóri Öldu

Lesa meira um Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé er stofnandi og framkvæmdastjóri Öldu. Alda er hugbúnaðarfyrirtæki sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að meta og auka fjölbreytileika og inngildingu. Alda hugbúnaðurinn fór í loftið haustið 2023 og komst í lok þess árs á lista ráðgjafafyrirtækisins Gartner yfir leiðandi tæknilausnir sem bjóða upp á markmiðasetningu í fjölbreytileika og inngildingu. Hún hefur einnig starfað sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar. Hún hefur tekið þátt í margháttuðum félagsstörfum og stofnaði m.a. V-daginn, sat í stjórn UN Women, íslenskri landsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna, í varastjórn Jafnréttissjóðs, og í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.  Hún stofnaði einnig umboðsskrifstofuna Eskimo Models og Ólöfu ríku, fyrirtæki sem framleiddi hönnunarleikföng og barnabækur. Þórey hefur mikla ástríðu fyrir útivist og ævintýraleit og hefur m.a. synt boðsund yfir Ermarsundið með Marglyttunum og þverað Vatnajökul (150km) á gönguskíðum. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík og CEIBS viðskiptaháskóla, Sjanghæ.